miðvikudagur, júní 28, 2006

P.s.

Mótórhjólakappinn, pabbi strákanna, hét "Landi", ef einhver kannast við hann. Ég er farin að halda að hryssan skelli sér líka í laugina. Djöfull verður Arnar glaður með gjöfina sem fjölskyldan valdi handa honum í sameiningu. Þ.e.a.s. fjölskyldan í sameiningu, ekki Arnar. Já, og ég er ótvíræður sigurvegari moskítóbitakeppninnar. Þetta fer að verða eins og í Genúa um árið; þær bíta mig í gegnum fötin, þær bíta mig meira að segja í gegnum sólstóla! Djöfull er ég sæt!

Jón er farinn heim

Jæja, þá er meirihluti hópsins floginn á vit rigningar og bjartra sumarnátta. Við átum kveðjupizzur þeim til samlætis í mollinu - eini staðurinn sem var opinn svona snemma! Þetta er soldið skrítið - frændsystkinin hafa rifist með nokkurra mínútna millibili alla vikuna, og sæst dramatískt inn á milli, en ungfrúin var ekki fyrr farin en erfðaprinsinn fór að tala um að nú vantaði eitthvað... Er samt nokkuð ánægður með athyglina og valdi að fara að skoða Uffici og fornar slóðir Medicianna frekar en fara í vatnsrennibrautagarð í næsta þorpi. Svo ræddum við svolitla stund um hvort við teldum möguleika á að fá Medici-þættina frá BBC á spólu. Eitthvað virðist vera að heppnast hjá okkur í uppeldinu. Og ef einhver veit hvar nálgast má þættina má senda Jóhanni línu. Annars gróf Edda upp smá inside information um hamingjusömu fjölskylduna sem hýsi okkur. Ættfaðirinn (eiginmaður Theresu og pabbi Stefanos og Francescos) var frægur mótorhjólakappi frá Flórens. Hann efnaðist á að keppa í kappakstri og keypti villurnar, í niðurníðslu, fyrir einhverjum árum. Svo lenti hann í slysi, mótorhjóla-, auðvitað, og lá milli heims og helju í einhvern tíma. Á endanum dó hann og þá fór mamman að slá sér upp með lækninum sem hafði unnið hvað ötulast í að tjasla honum saman. Nú eru þau gift og Francesco kallar hann "eiginmann móður minnar". Þannig var nú það. Orri fékk sér göngutúr niður að sundlaug í gærkvöldi og kom að hundunum, öllum fjórum, að fá sér vatnssopa úr lauginni. Ég efast um að þeir hiki við að skella sér í laugina þegar þeir eru í stuði. Þess vegna langar mig að fara í vatnsrennibrautagarð... Á föstudaginn ætlum við svo að skreppa til Garda, að hitta Lamba og Fjömmu, og vera með þeim þar fram á mánudag. Þá er aldrei að vita nema Max sjái sér fært að hitta okkur í Genúa á leiðinni til baka. Sjáum til.

þriðjudagur, júní 27, 2006

Sorp á reki

Hm... Bíddu nú við. Sunnudagur: sundlaug og svo út að borða. Minnir mig. Mánudagur: bíltúr til Monterosso og bað innan um dömubindi, túrtappa og plástra úr "fínu" snekkjunum sem dóla fyrir utan strandlengjuna. Verð hafa hækkað um ca. 300% frá því að við vorum þarna fyrst, fyrir 6 árum. Leigðum hjólabát og Orri hélt uppteknum hætti, henti börnunum til skiptis í Miðjarðarhafið. Áður en hákarlamisskilngurinn hafði verið leiðréttur vakti tiltækið talsverða skelfingu en svo var bara stuð. Borðuðum vel og lengi á hipp og kúl veitingastað bæjarins og keyrðum svo heim á leið. Því miður var beinasta leiðin heim lokuð í tilefni dagsins svo við þurftum að taka á okkur klukkutíma aukakrók... Rennt í hlað heilu og höldnu í hæðunum klukkan korter yfir þrjú eftir að hafa drukkið tvo alvöru tvöfalda caffé á einhverju vegakaffi og sungið þríraddað öll helstu auglýsingastef Íslandssögunnar. Hver man ekki eftir "Kaye's er kosturinn..."? (Yfirþýðandinn er beðinn um að taka eftir greinamerkjasetningunni og taka hana til sín.) Dagurinn verður notaður til að þvo það sem þarf að þvo því meirihlutinn heldur heim á morgun og þá missum við aðganginn að þvottavélinni. Brjálað að gera, eins og þið sjáið...

laugardagur, júní 24, 2006

Ég bara get þetta ekki

Timburmenn í heimsókn í morgun og voða heitt, Orri neytir aflsmunar og hendir börnunum til skiptis út í laug, í fötum eða án, mæðrunum til mikillar skapraunar. Búið að fjárfesta í sólhlíf og ægilega flottum sólbekk, heitar umræður á veröndinni um allt sem engu máli skiptir, rauðvínið farið að segja til sín. Ég ætla deffinetlí að hætta að drekka að ferðalagi loknu. S K Á L !

fimmtudagur, júní 22, 2006

Nýr unglingshani á haugnum

Unglingarnir voru settir í flug í kvöld og annar unglingur, reyndar aðeins eldri fenginn í staðinn. Addi og Brynja sitja as I write um borð í spænsku Futura vélinni; verði þeim að góðu geðvonda flugfreyjan! Orri litli er hins vegar lentur hér og sefur vonandi vært. Hann er með hanakamb. Fundur á morgun, fundur á föstudag, hver er að kvarta um að ég hafi ekkert að gera? Svo eru a.m.k. 14 tegundir af ís sem ég hef hugsað mér að smakka betur. Það er gott að Lilli er kominn, hann er svo ágætur. Líka með kambinn.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Un gelato - tantissimi gelati

Arnar bað um ísrapport. Ég hef þyngst um a.m.k. 3 kg og stend mig mjög illa í drykkjunni. Svarar það einhverju? Ísinn er frábær, meira að segja iðnaðarísinn. Sem er mjög heppilegt fyrir mig. Börnin og unglingarnir voru mjög fljót að átta sig á að ég er alltaf til í að splæsa ís. Nú hafa þau hins vegar misst áhugann en ég grátbið þau um að þiggja einn (þó ekki væri nema saman) mér til samlætis. Það kemur einhvern veginn betur út. Arnar! Við þurfum að fara í helgarferð til Ítalíu í þeim tilgangi einum að smakka ís. Svo erum við að fara á fund á morgun til að skoða ísvél Ariete framleiðandans, hún virkar eins og þessi sem við vorum með nema miklu þægilegri í notkun og tekur hemingi minna pláss. Ég varð vandræðalega glöð þegar ég sá hana og gat varla setið á mér að biðja um sýniseintak með mér heim, alveg til í að bera hana og allt.

Brjálað að gera

Bíddu nú við, hvar var ég. Á mánudaginn fórum við og versluðum í matinn og svo fórum við Einar á fund með Ariete. Tókst að villast en fundum staðinn á endanum og enduðum í kvöldmat hjá markaðsstjóranum og íslenskri eiginkonu hans. Áttum frábært kvöld á meðan restin af hópnum drakk dýrasta gos lífs síns á einhverjum skítatúristastað í bænum. Svona er lífið, skin og skúrir. Hm... og hvað svo... í gær fórum við í "yndislegan" vatnsrennibrautargarð við ströndina og borðunum svo skelfiskpasta á veitingastað í sjávarmálinu í kvöldmat. Annað frábært kvöld. Í kvöld kemur svo Orri til að vera í viku og unglingarnir fara heim. Hvað ættum við að gera í dag... Ég ætla að byrja á að leggja mig.

sunnudagur, júní 18, 2006

Góð á kortinu

Soldið vandræðalegt. Einhverjir minnast þess mögulega að á laugardaginn var ætlunin að fara á markaðinn í Siena. Þetta er sögufrægur markaður, ferðast á milli borga í héraðinu; fyrstu helgina er hann í Arezzo, aðra í Pisa og þá þriðju í Siena. Nooooooot! Þriðju helgi í mánuði er markaðurinn nefnilega haldinn í Lucca. Það fattaði túrgædinn þegar hersinginn var komin, alls ekki átakalaust, til Siena. Það er þetta með að lesa á kortin, sjáiðið, ég er að pæla í að venja mig að lesa túristatextana aðeins betur. Sem beur fer höfðu Lambi og Fjamma misskilið daginn rétt og hittu okkur á dómkirkjutorginu í Siena. Við vörðum 3 indælum klukkustundum með þeim og borðuðum svo með grúppunni á besta matsölustað sem ég hef komið á í Toskana. Mamma mia! Enda sagði vertinn lítllátur þegar ég þakkaði honum fyrir mig og hrósaði staðnum í hástert, að þeir væru sammála mér, þessir þarna á New York Times. Sem sagt, þið sem eigið leið um Siena skuluð spisa á La Torre, rétt hjá hinu stórglæsilega Piazza di Campo. Í dag, sunnudag var ákveðið að ákveða ekki neitt, við litla fjölskyldan og mamma fórum í ferðalag að leita að morgunmat og leiti bar árangur klukkutíma eftir að við fórum að heiman. Ekkert 10-11, Melabúðin alltaf opin í boði, hér er allt lokað á sunnudögum. Veit ekki hvað við gerum á morgun. Það verður vafalaust eitthvað mjög flókið og pródúserað, eins og að færa bekkina við sundlaugina í skjól yfir miðjan daginn.

föstudagur, júní 16, 2006

Við unglingarnir (33, 17 og 16)...

..fórum í bæinn að versla. Skemmtilegt að segja frá því að við fengum föt á okkur öll í sömu búð, mamma gamla reyndar líka (55). Einar tölti á undan niður í bæ og svo vorum við samferða heim. Pizza hlaut flest atkvæði í kvöldmatarkjörinu í dag og svo við fórum aftur á karókípizzastaðinn þar sem ungfrú Brighton 1967 afgreiðir á barnum. Ég skil ekki orð af því sem hún segir og hún neitar að tala ensku við mig. "Thútthó behne?" "Vholethe chantharei neill kareókhei? Nohn dóvethe esshere tímithi!" Skelfileg. Svo löbbuðum við á hverfishátíðina sem er í fullum gangi öll kvöld á sumrin. Þangað safnast bæjarbúar og skella sér á trampólínið á meðan börnin eru geymd í hoppikastala, drekka bjór, borða ís, fylgjast með blakliði hverfisins leika listir sínar og prútta um handgerða skartgripi. Hverfishljómsveitin leikur fyrir dansi og sumir fá sér að borða. Allt voða kósí og huggulegt. Á leiðinni heim reykspólaði ég í brekkunni á rútunni og Jón fékk hjartaáfall úr hlátri en dó því miður ekki. Á morgun er planið að renna til Siena á markað, hitta Lamba og Fjömmu og tjilla.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Sínusar og zanzörur

Ég man ekki hvað við gerðum í dag. Eitthvað rámar mig þó í að hafa farið í búð að kaupa melónu og svo borðuðum við einhversstaðar uppi í fjöllum. Annars man ég ekki meir. Bitin eru orðin 23, and counting. Fjárfest hefur verið í öllum tegundum moskítóvarna sem til eru í héraðinu en þær láta það ekkert á sig fá. Og nei, zan zara er ekki nafn á sætabrauði, heldur ítalska heiti mo-SKÍT-óflugunnar. Djöfull sem ég nýt þess að drepa þær. Á morgun er planið að fara í búðarrölt með unglingunum. Líklega. Þ.e.a.s. ef við vöknum fyrir kvöldmat. Og þá ætla ég ekki að leggja við dómkirkjuna, heldur inni í henni. Muohohohoh!

Eru engin bílastæði hjá Dómkirkjunni?

Þá eru mamma og Einsi komin og Jóhann hoppaði hæð sína. Mikið sem hann heldur upp á pabba sinn, drengurinn. Kannski ekki furða þar sem morguninn fór í að settla málin og fá hann ofan af því að pakka niður og yfirgefa pleisið og sérstaklega mig. Ég man ekki lengur hvað út af brá og það skiptir ekki máli en mikið er erfitt að ala upp bráðþroska ungling! Dagurinn leið við leik og söng, ég bauð systrunum í búðarbíltúr í miðbæinn og við fórum á Pólóinum sem er allur orðinn rispaður eftir þrjóta sem stinga svo bara af. Við keyrðum, harla ánægðar með okkur, þrjár stelpur á leið í búðir og spjölluðum um daginn og veginn. Þegar í miðbæinn kom leituðum við að stæðum, fundum nokkur þar sem maður þarf að búa í hverfinu til að mega leggja, fundum líka nokkur stæði fyrir pöpulinn en fundum ekki hvar átti að keyra inn á þau. Eftir nokkra hringi á nokkrum hringtorgum komum við á svæði þar sem virtist líklegt að við fyndum stæði því það voru ekki svo margir bílar. Soldið skrítið því það var allt fullt af Japönum með myndavélar, Ameríkönum með rassa og stynjandi Ítölum í ullarpeysum og vattvestum (aðeins 30 gráður í dag). Og svo var allt svo huggulegt þarna, meðal annars ægilega áferðarfalleg bygging sem ég sá auðvitað um leið og ég keyrði upp að dyrum, eða því sem næst, að var dómkirkja borgarinnar. Þegar betur var að gáð kom í ljós að það mátti ekki leggja þarna. Ég mátti ekki einu sinni keyra þarna. Ég mátti ekki einu sinni koma inn í hverfið á bíl. Þannig að við snerum við á punktinum, unglingurinn blánaði og hvarf af skömm, dauðhræddur um að einhver vitni yrðu að stæðaharmleik frænkufíflsins en litla dýrið hafði tekið miðdegislúrinn sinn í tilefni að því að stæðisleitin hafði varað í klukkutíma eða svo. Unglingurinn tók gleði sína þegar ég benti henni á að ég þyrði að fullyrða að enginn í hennar bekk, enginn í hennar skóla, enginn á Íslandi óskyldur henni, ætti frænku sem þyrði að keyra í miðbæ Flórens high season. Rauðröndóttu, stórglæsilegu stuttubuxurnar sem fjárfest var í nokkrum mínútum seinna áttu líka alveg sinn þátt í að vandræðagangurinn varð ekki meiri. Ég verð reyndar að viðurkenna að mér stóð ekki á sama, svona eftir á, þetta hefði getað orðið dýrt ef engar stelpur í stuttum pilsum hefðu verið á torginu (þá hefðu ítölsku löggurnar kannski tekið eftir okkur). Og af því að við höfðum verið fjarverandi heila fjóra tíma fannst okkur við hæfi að koma færandi hendi í hús. Allir fengu eitthvað við sitt hæfi og Jón sérstaklega. Mynd væntanleg. Eftir ánægjulega kvöldverðarstund með amerísku fjölskyldunni frá Boulder, Colorado (skila kveðju frá þér, Helga) skutluðumst við Jón og Jóhann að sækja Einsa og mömmu til Bologna. Sem betur fer hittum við fullt af fólki sem við þekktum því að sjálfsögðu seinkaði vélinni. Jón gleymdi sígarettunum svo hann sendi Jóhann út að sníkja og ég er að spá í að fara að gera strákinn út. Hann er náttlega svo fallegur drengurinn, orðinn kolbrúnn og hárið gyllt og svo er hann himinlifandi yfir því að pabbi gamli skuli vera kominn. Alles ist gut im himmlen, gúdd næt. P.s. Theresu finnst hann lifandi eftirmynd mín og ég allt of ung til að eiga svona gamalt barn.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Francesco, Theresa, Stefano og Anna

Ég átti alltaf eftir að segja ykkur frá húsinu og aðstæðum hérna í himnaríki. Sko. Þetta er greinilega einhver fjölskyldubisness og ættaróðal því hér búa bræðurnir Francesco og Stefano ásamt sænskri kærustu þess fyrrnefnda, henni Önnu. Mamma strákanna tTheresa, og "maðurinn hennar" eins og Francesco kallaði hann búa hér líka. Húsið stendur á talsverðri landspildu í hæðunum fyrir ofan Flórens; það er 5-10 mín. labb niður á aðalgötuna í hverfinu sem er ekkert sérstaklega spennandi úthverfi. Þaðan er svo 5-10 mín strætóferð í bæðinn eða 15-150000 mín bílferð (sjá kaflann um ökumenningu Ítala). Á landareigninni ræktar litla fjölskyldan ólífur og býr til ólífuolíu. Stefano virðist vinna við það og móðir Teresa sér um að þvo handklæði og gera huggulegt. Francesco hjálpar auðvitað líka til en vinnur jafnframt á veitingastað niðri í bæ. Anna hin sænska er stúdent við Siena háskóla. Í húsinu eru þrjár íbúðir í útleigu; aðrar tvær þar sem Stefano og mamma búa og svo lítið hús á lóðinni þar sem ungu hjónin halda til. Hér eru fjórir riiiiisastórir, loðnir og skítugir hundar, ósköp vinalegir og svo er ung meri sem sprangar um lóðina. Í 50 m fjarlægð er hin huggulegasta sundlaug með útsýni yfir Flórens og það er alltaf sól á hinum samliggjandi veröndum íbúðanna tveggja sem við leigjum. Innréttingar eru látlausar, vel hirtar og smekklegar. Þetta er eins og best verður á kosið. Það er svo mikið að gera hjá mér við að gera ekki neitt að ég verð að skrifa það hjá mér að taka myndir til að sýna ykkur. Þangað til getið þið kíkt á www.castelloapartments.com. Já, og í dag versluðum við í matinn. Ég var útkeyrð og varð að fá mér púrtvín til að slaka á. Og ég man glögglega af hverju ég hætti að drekka; a) hausverkur, b)skemmtilegheit. Þ.e. ég fæ hausverk við að opna flöskuna og ég er miklu skemmtilegri edrú. Ég kann eiginlega ekki við mig in gleis (í glasi) og þolið er náttúrulega hrikalega lélegt. Það er vissulega afskaplega huggulegt að fá sér sopa og sopa en ég stórefast um að framhald verði á drykkjunni eftir að heim verður komið.

Bróðir minn les ekki bloggið mitt

Þetta er huggulegt eða hitt þó heldur! Fyrir ykkur sem ekkert vitið á má ég til með að segja ykkur að ég á einn bróður. Einn skitinn lítinn bróður. Sem situr við tölvuna aaaaaallan daginn en gefur sér samt sem áður ekki tíma til að skoða bloggið mitt. Frábært. Ef einhver heyrir hann eða sér er sá hinn sami beðinn um að spyrja hann frá mér og einkasyni mínum (sem n.b. er nefndur í höfuðið á þessum einkabróður mínum) hvort kvenkyns máfar heiti eitthvað sérstakt. Sínusarnir hafa tvímælalaust færst upp um eitt sæti á vinsældalistanum.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Lífsháski brjálaða folaldsins.it

Í gær fórum við í tívolígarð. Það sem átti að vera stutt og laggó bílferð og hressileg skemmtigarðadvöl breyttist næstum því í bíltúr um Evrópu og sjúkrahúsdvöl..! Við hófum daginn á að leita að sæmilegu vegakorti og internetkaffi þar sem ég komst ekki inn á netið hérna heima og mundi ekkert hvað garðurinn hét. Eftir tveggja tíma leit vorum við loks komin með hvort tveggja og þessa prýðilegu leiðarlýsingu sem ég fann á heimasíðu garðsins www.cavallinomatto.it. Nema hvað, þegar á hólminn kom í ljós að leiðarlýsingin átti líklega við kort úr Andrésblaði og fararstjórinn (þ.e.a.s. ég) leit ekki á alvöru kortið fyrr en við vorum búin að keyra ansi lengi, og þá bara til að komast að því að hann (ég) gleymdi að beygja 100 km norðar. Allt í lagi með það, við sáum geysimikið af landinu, þ.e. þau okkar sem vöktu og svo heppilega vildi til að ég var ein af þeim. Enda við stýrið. Börnin sýndu gríðarlega þolinmæði og voru hin hressustu þegar á áfangastað var komið. Í garðinum dunduðum við okkur í 3 tíma, hittum tvær aðrar íslenskar fjölskyldur, auðvitað, og prófuðum öll tækin, eða þvi sem næst. Ég hætti eftir rússíbanann, sínusarnir alveg að drepa mig. Þegar leið að lokum ákváðum við að fara annan hring í völdum tækjum og meðal þeirra var e-k eftirmynd af sólkerfinu; kálfur sem tveir settust hlið við hlið inn í, svo keyrði kálfurinn hring á jörðinni og valt í hringi afturábak og áfram á meðan. Svona sjóveikitæki. Addi og Jóhann fóru saman og þegar þeir eru nýlagðir af stað sýnist mér að Jóhann sitji eitthvað skringilega. Systurnar fullvissuðu mig um að svona ætti þetta eimitt að vera og eg trúi því þangað til ég sé að hann hvolfist úr sætinu, æpir og öskrar og skórnir hans koma fljúgandi út um kálfinn. Addi greyið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, taldi sig ýta á STOP takkana sem virkuðu auðvitað ekkert. Kálfurinn valt áfram og Jóhann á fleygiferð inni í honum. Í fjarlægð var þetta soldið eins og þvottur í þvottavél. Sem var einmitt eins og hann upplifði þetta. Eða kúla í kúluspili, eða Candy Floss. Sagði ég ekki, hann er skáld. Við lifðum þetta öll af og lærðum tvær mikilvægar lexíur; a) aldrei að leggja af stað án þess að skoða kortið, b) alltaf að spenna beltin. Í dag ætlum við að slappa af og jafna okkur á atburðum gærdagsins. Annað kvöld koma Einar og mamma. Orri! Hvert er kvk heiti máfs?

Vafasöm valdaskipting

Valdaskiptin í íslensku ráðuneytunum er ekki það eina dúbíus í þessum heimi. Moskítóflugurnar hafa í samráði við stíflaða sínusa ákveðið að taka yfir líf mitt. Þeir sem þekkja til vita að persónulegt moskítóbitafjöldamet var sett haustið 1995 í Genúa - þá náði ég mér í 82 bit, vessgú. Ég segi ekki að þetta sé svona slæmt núna, en það er klárlega kominn tími til að fá sér moskítóstikk eða eitthvað. Og sínusarnir fá sko fyrir ferðina þegar heim er komið. "Nei, fokk" segir Jóhann, "ég drap eina að verki." Hann verður skáld. Anzi, hann ER skáld.

Ræs! Það er örugglega komið hádegi

Þetta er afskaplega ljúft líf, það verður ekki annað sagt. Við vöknum á morgnana (11-13), fáum okkur að borða, berum sólarvörn á krakkana og drekkum smá kaffi. Þegar búið að ganga frá eftir matinn er kominn tími til að skipuleggja hvar á að borða í kvöldmat og undirbúa brottför, smala krökkunum úr lauginni og reyna að muna hverju maður er að gleyma. Sem oftast er ekkert..! Á laugardag fórum við í bíltúr um Toskana, við erum á 9 manna bíl sem stundum fyllir alveg upp í vegina. Rosa gott að keyra hann en samt ekki alveg sá hentugasti til að vera á inni í borgum, þar sem akreinarnar eru iðulega þrjár en bílaraðirnar fimm og svo 10 vespur fyrir hvern bíl og merkingar svona soldið eftir minni þess sem var á vakt í áhaldahúsinu þegar þær voru hengdar upp. Nema hvað, við fórum til San Gimingnano, sem er einn best varðveitti miðaldabær í heimi. Af turnunum 76 sem reistir voru á 14. öld eru 14 eftir, hver öðrum glæsilegri. Svo keyrðum við sem leið lá í virkið Monteriggione þar sem Edda performeraði um árið með Sv&syk. Þangað var frábært að koma; við borðuðum frábæran mat og skemmtum okkur konunglega. Sunnudagurinn var tóm sæla, sulluðum í lauginni, borðuðum heima og fórum snemma að sofa enda ævintýri í vændum.

mánudagur, júní 12, 2006

Risin upp frá dauðum

Batteríið kláraðist og klóin á hleðslusnúrunni var allt of breið. Svo fann ég innstungu sem passar (tók eldavélina úr sambandi) en þá bregður svo við að ég neeeeeenni bara ekki meiru í kvöld. Ég er í fríi, andskotinn hafi það, ég neita að vera með móral. Svo er ég er með moskítóbið í staðinn. Gúdd næt.

föstudagur, júní 09, 2006

Timburmenn

Við erum semsagt lent. Börnin eru aðallega í lauginni og við hin reynum að vera gáfuleg á milli glasa. Djók, hér eru allir mjög ákveðnir í að njóta frísins og slaka á og það gengur svona prýðilega. Ég er á góðri leið að ná mér niður (svo stressandi að gera ekkert, sjáið til) en það er nú reyndar á mörkunum að ég nenni þessu bloggi... Skýtur ekki soldið skökku við að blogga af skyldurækni? Gagnvart vinum sem efndu til innbyrðis samkeppni um hver drullar mest yfir bloggarann? Er furða að maður sé þreyttur? Annars er bara svo mikið að gera við að vera í fríi að ég má bara ekki vera að þessu röfli fyrr en í rúmið er komið og þá er ég náttlega svo uppgefin að ég skrifa bara típrósent af því sem á daginn dreif. Og soldið full. Nei, nei, þetta er allt í hófi; eitt r-glas með pizzunni og sítrónulíkjör úti á verönd fyrir svefninn; alkóhólismi í algjöru lágmarki, meira svona alkóhólasni. Nema hvað; eftir tíðindalaust flug að mestu þar sem spænsk, íslenskumælandi flugfreyja, skemmti okkur með þvílíkum dónaskap að netsíðan hjá Icelandair fellur í skuggann sem dæmi um ... skrítna þjónustu, lentum við heilu og höldnu á Bologna flugvelli. Kom í ljós að við þekktum helminginn af farþegunum og skiptumst á upplýsingum á meðan beðið var eftir töskunum. Sem skiluðu sér allar um síðir. Sóttum bílana og brunuðum af stað, villtumst smá en fundum húsið auðvitað að lokum með hjálp hins syfjaða Francesco sem rekur staðinn ásamt Önnu sinni og Stefano bróður sínum. Teresa hjálpar þeim soldið og svo eru fjórir varðhundar sem ryðjast reglulega gegnum runnana og slefa á skallann á Jóni. Íbúðirnar eru æðislegar, veröndin sömuleiðis, sundlaugin frábær og allt eins og best verður á kosið. Og ekki er félagsskapurinn af verri endanum. Fyrir utan Einar. Hann er ekki með! Kom nefnilega í ljós á síðustu stundu að fyrirvarinn var of skammur til að hann gæti komist frá í svona langan tíma (ferðin var n.b. keypt í október!) svo hann kemur samferða mömmu með næstu vél. Hér er ekkert agenda annað en hafa það gott og enn sem komið er virðist allt samkvæmt áætlun. Á morgun e planið að keyra um sveitirnar og heimsækja San Gimingiano. Og svo koma sundlaugagarðarnir sterkir inn þegar hvíta íslenska skinnið hefur myndað smá vörn gegn sólinni. Af Jóhanni er það helst að frétta að honum finnst hverri mínútu sem varið er annars staðar í lauginni illa ráðstafað. P.s. ég er ekkert alltaf full.

Guð hlýtur að vera til

Mér finnst eins og liðnir séu margir mánuðir frá síðustu færslu, enda hefur ýmislegt á daga mína drifið frá því á sunnudag. Ástand sínusanna þó svipað. Ef guð sé til þá helvítis hann. Nema hvað. Ég dó næstum því á hjólinu í fyrradag. Hjálmurinn bjargaði gleraugunum og því sem eftir var af heilasellum en húðin af vinstri hlið líkama míns varð eftir á stíg við Kjarvalsstaði. Til að gera langa sögu stutta þá var ég í kappi við Jóhann og þegar ég kemst á hjól og skíði þá breytist ég úr skynsamri og ábyrgri móður í áhættuleikara í sjálfboðavinnu. Trúið mér - hjálmurinn gegnir einungis pedagógískum tilgangi. En þetta er ekki ástæðan fyrir því að ég held að guð hljóti að vera til. Og nú þyrfti ég að kunna á línubilin því næsta málsgrein fjallar ekki um áhættuhjólatúr. Senst, tvist í frásögninni. Þar sem þeirrar þekkingar hefur enn ekki verið aflað verðið þið að bíða eftir að af mér renni. Framhald í næstu viku. Djók. Kannski á morgun. Skál! P.s. (hér hefði líka verið svakalega huggulegt að hafa línubil) Mikið er gaman að fá allar þessar fallegu kveðjur frá fíflunum vinum mínum. Já, og Klæderman fékk að koma með mér, en ég skildi eitís diskinn og Best of Billy Joel eftir fyrir þig, Orri minn. Hikk.

sunnudagur, júní 04, 2006

Helvítis, andskotans, djöfulsins sínusar

Ég er að drepast úr kvefi. Sjö tíma dvöl í ímynduðu sumri á Bónusmóti 7. fl. karla í fótbolta hefur kannski eitthvað með það að gera, heilsan skánaði að minnsta kosti ekki og nú eru þetta að verða 2 vikur. Í þriðja sinn á 3 mánuðum. Svo sé ég á veðurvefjum að hitinn í Toskana er ekkert til að hrópa húrra fyrir heldur, svipuð ímyndun í gangi þar. Enn styttist í förina og geri nákvæmlega ekki neitt til að undirbúa mig. Verð líklega á þönum á brottfarardag ferlega pirruð yfir því að hafa ekki gert meira, til dæmis í dag. Sauð þó hafragraut í hádegismat fyrir erfðaprinsinn og félaga og steikti svo pönnukökur ofan í þá í middagskaffi. Ef einhver vill draga þá að landi eru nokkrar eftir. Verð að fara að snýta mér.

laugardagur, júní 03, 2006

Cecina eða Follonica?

Arnar er eitthvað sár út í að ég skrifi ekki nógu mikið. Mér finnst bara óþægilegt að skrifa bara til að skrifa, finnst ég endilega þurfa að bjóða upp á innihald. Sem er einmitt ekki raunin í augnablikinu. Get þó glatt lesendur með því að ég er farin að hlakka verulega til Toskanadvalarinnar. Meðal þess sem áætlað er að taka sér fyrir hendur er að skreppa í vatnsrennibrautagarð; kíkið á www.aquavillage.it og segið mér hvorn garðinn ykkur líst betur á Cecina eða Follonica... Látið ykkur svo dreyma og drepist því næst úr öfund. Góða nótt.