þriðjudagur, júní 13, 2006

Lífsháski brjálaða folaldsins.it

Í gær fórum við í tívolígarð. Það sem átti að vera stutt og laggó bílferð og hressileg skemmtigarðadvöl breyttist næstum því í bíltúr um Evrópu og sjúkrahúsdvöl..! Við hófum daginn á að leita að sæmilegu vegakorti og internetkaffi þar sem ég komst ekki inn á netið hérna heima og mundi ekkert hvað garðurinn hét. Eftir tveggja tíma leit vorum við loks komin með hvort tveggja og þessa prýðilegu leiðarlýsingu sem ég fann á heimasíðu garðsins www.cavallinomatto.it. Nema hvað, þegar á hólminn kom í ljós að leiðarlýsingin átti líklega við kort úr Andrésblaði og fararstjórinn (þ.e.a.s. ég) leit ekki á alvöru kortið fyrr en við vorum búin að keyra ansi lengi, og þá bara til að komast að því að hann (ég) gleymdi að beygja 100 km norðar. Allt í lagi með það, við sáum geysimikið af landinu, þ.e. þau okkar sem vöktu og svo heppilega vildi til að ég var ein af þeim. Enda við stýrið. Börnin sýndu gríðarlega þolinmæði og voru hin hressustu þegar á áfangastað var komið. Í garðinum dunduðum við okkur í 3 tíma, hittum tvær aðrar íslenskar fjölskyldur, auðvitað, og prófuðum öll tækin, eða þvi sem næst. Ég hætti eftir rússíbanann, sínusarnir alveg að drepa mig. Þegar leið að lokum ákváðum við að fara annan hring í völdum tækjum og meðal þeirra var e-k eftirmynd af sólkerfinu; kálfur sem tveir settust hlið við hlið inn í, svo keyrði kálfurinn hring á jörðinni og valt í hringi afturábak og áfram á meðan. Svona sjóveikitæki. Addi og Jóhann fóru saman og þegar þeir eru nýlagðir af stað sýnist mér að Jóhann sitji eitthvað skringilega. Systurnar fullvissuðu mig um að svona ætti þetta eimitt að vera og eg trúi því þangað til ég sé að hann hvolfist úr sætinu, æpir og öskrar og skórnir hans koma fljúgandi út um kálfinn. Addi greyið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, taldi sig ýta á STOP takkana sem virkuðu auðvitað ekkert. Kálfurinn valt áfram og Jóhann á fleygiferð inni í honum. Í fjarlægð var þetta soldið eins og þvottur í þvottavél. Sem var einmitt eins og hann upplifði þetta. Eða kúla í kúluspili, eða Candy Floss. Sagði ég ekki, hann er skáld. Við lifðum þetta öll af og lærðum tvær mikilvægar lexíur; a) aldrei að leggja af stað án þess að skoða kortið, b) alltaf að spenna beltin. Í dag ætlum við að slappa af og jafna okkur á atburðum gærdagsins. Annað kvöld koma Einar og mamma. Orri! Hvert er kvk heiti máfs?

4 Comments:

Blogger Gummi said...

Shit! Þú hefur væntanlega látið stjórnendur tækjanna hafa það óþvegið!?

9:15 f.h.  
Blogger Hölt og hálfblind said...

Hressandi að hrista barnið aðeins til, eins og kúlu í kúluspili, jessússs minn!

8:17 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Við Kári erum í sjokki eftir lýsingarnar af þvottavéla-kandíflos-kúluspila atvikinu. En Kári spyr hvort Jóhann geti séð heimsmeistarakeppnina þarna úti. Þegar Brasilía vann í dag varð allt brjálað í hverfinu okkar. Hann vill vita hverjum Jóhann heldur með. Kári heldur sko með Þýskalandi.

10:28 e.h.  
Blogger Tinna said...

Ég öskraði bara á kellinguna sem svínaði á mig á einhverri aðrein. Það sló þögn á hópinn (2 x 16 ára og 2 x 8 ára) og svo sagði einhver: "Það eru börn í þessum bíl". Soldið gott.

Kúluspilakandíflossþvottavélin var agaleg reynsla.

Ég skal spyrja hann þegar hann vaknar með hverjum hann heldur. Jóhann sér leik og leik, svona þegar hann má vera að því að skreppa úr sundlauginni.

12:15 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home