þriðjudagur, júlí 04, 2006

Ferðarlok, (með erri)

Sigið all hressilega á seinni hlutann og ekkert síma- eða netsamband á ferðalagi fjölskyldunnar undanfarna daga. Á fimmtudaginn stóð til að heimsækja Mediciana en við urðum að hætta við vegna hita (36 gr og skýjað) auk þess sem safnið var lokað. Fórum þess í stað á litlu trattoríuna sem við fundum um árið á Via Proconsolo, þar sem klæðskiptingurinn og nunnan þurftu að þjappa sér svo við Einar gætum setið ung og ástfangin á sama borði. Og hvort annað. Kokkurinn blindfullur og klósettið í næstu götu. Besta svínasteik sem ég hef smakkað til þessa... Staðurinn sveik ekki og við átum nægju okkar og fórum svo heim því hitinn var hreint og beint óbærilegur. Á föstudagsmorguninn lögðum við svo af stað til Garda að hitta Lamba og Fjömmu; borðuðum á leiðinni í litlum bæ þar sem í boði var smjör-pinolipasta og heimsins besti möndlubúðingur. Laugardagurinn fór í sólbað á Hotel Olimpia við Gardavatn; afi Lamba samdi um það við hótelstjórann að afkomendur hans og þeirra kompaní hefðu ævarandi aðgang að lauginni þegar hann seldi honum lóðina. Þar er sko önnur sápa! Einar var á röltinu, Jóhann í lauginni og ég svaf í skugga ólífutrjánna. Frábær dagur. Á sunnudeginum sigldum við um vatnið, gerðum vísindalegar ískannanir og héldum svo áfram að sofa við laugina. Á mánudeginum keyrðum við Genúa eftir að hafa mælt okkur mót við hinn óborganlega Max sem deildi íbúð með mér í Genúa um árið. Ég lenti í rifrildi við einn af gjaldkerum hraðbrautarinnar sem endaði með því að Einar fór út og borgaði 1 evru með kreditkortinu sínu svo við losnuðum úr öskrinu og flautinu. Ég missti það ... næstum því. Hugsa samt að fegðarnir skrifi ekki undir þá söguskýringu. Eftir hrakningar við að komast inn í Genúa hittum við Max og fengum okkur heimsins bestu granítu hjá geðvondu Sikileyingunum í Castelletto. Það var frábært að hitta Max og úr varð að við gistum hjá honum og frú Mirellu sem búa einmitt við sömu götu og Ásta og Kjartan gerðu um árið. Borðuðum saman á L'Infernotto, stað sem við reynum að heimsækja í hverri heimsókn til Ítalíu. Urðum ekki fyrir vonbrigðum frekar en fyrri ár - og enduðum Genúa dvölina á hádegisverði á sama stað. Staðurinn er á Via Macaggi, beint á móti líkamsræktarstöðinni hennar Ástu..! En maður minn - ég var búin að steingleyma hvað Genúabúar eru leiðinlegir! Stressið var verra en á íslenskri Þorláksmessu og stælarnir svakalegir. Meira að segja Jóhann fékk sinn skammt þegar hann hætti við að fá sér bacio ís og valdi nocciola í staðinn. Það lá við að ísfíflið tapaði sér; frussaði í bræði yfir barnið og henti í hann ísnum. Borgin er hrikalega skítug, hundaskítur og hland úti um allt og fullt af plássum í niðurníðslu. En endurfundirnir við Max og viðkynningin við hina sjarmerandi og óléttu Mirellu voru frábærir. Max upplýsti okkur um að hann og Totti (þið vitið, Francesco) væru æskuvinir og hefðu æft fótbolta í gamla daga og Jóhanni fannst strax meira til hans koma. Við gistum svo hjá þeim og ég fékk svakalega martröð, dreymdi að Jón Haukur væri dáinn og Gunna gerði ekki annað en hugga okkur Arnar. (Hvernig er svo veðrið í Indjánagili?) Lögðum af stað frá Genúa eftir himneskan semifreddo á L'Infernotto, og drukkum kaffi með hinum uber sænska Peter frá Isomac í fyrrum hippanýlendunni Pietra Santa, í nágrenni marmaranámanna í Carrara. Brunuðum því næst heim á leið til að eiga síðustu kvöldmáltíðina í faðmi Egyptanna í Rifredi. Brá í brún þegar við komum því við vorum einu gestirnir. Höfðum á hraðbrautinni gleymt, við ljúft undirspil félaga Conte, að leikur Ítalíu og Þýskalands var aðalmálið og enginn mundi eftir að borða. Báðumst margfaldlega afsökunar á að trufla þá við leikinn en þeir hugsuðu sér gott til glóðarinnar því þeir héldu að við værum Þjóðverjar. Kannski hafa þeir ætlað að lemja okkur sér til skemmtunar í leikslok? Við leiðréttum misskilninginn snarlega og sögðumst vera Ítalir í hjarta og þá misstu þeir áhugann og gleymdu helmingnum af pöntuninni svo við drifum okkur heim í hundaland að horfa á seinni hálfleik. Nú þegar honum er lokið með ótrúlegum sigri okkar manna, Totti vinur okkar Max var náttlega æðislegur, vitum við ekki hvort við munum sofa neitt í nótt því bílflauturnar gella um hæðirnar og nú er komið að hundunum að missa það... Á morgun: vatnsrennibrautagarður til heiðurs Jóhanni og svo flug einhverntímann um kvöldið. Ólíklegt að meira heyrist héðan... staðfesti lendingu þegar ég vakna á fimmtudag.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Helvítið hann Totti. Maður sem grípur alltaf um höfuðið og engist þegar einhver hleypur framhjá honum.

11:39 e.h.  
Blogger Tinna said...

Ekki tala svona um vin minn.

7:15 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ertu ad tala um Pikejump líkamsræktarstaðinn? Þetta var alls ekki bara minn líkamsræktarstaður því ef minnið svíkur mig ekki þá komuð þið Kjartan með mér í eróbikk ;-). Frábært að þið hittuð Max. Ætla rétt að vona að hann hafi munað að skila bókinni!!
Annars hefði ég viljað vera með ykkur á Ítalíu í gær eftir leikinn! Ótrúlega flott hjá þeim að merja þetta á lokamínútunni!

10:37 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home