fimmtudagur, júní 15, 2006

Eru engin bílastæði hjá Dómkirkjunni?

Þá eru mamma og Einsi komin og Jóhann hoppaði hæð sína. Mikið sem hann heldur upp á pabba sinn, drengurinn. Kannski ekki furða þar sem morguninn fór í að settla málin og fá hann ofan af því að pakka niður og yfirgefa pleisið og sérstaklega mig. Ég man ekki lengur hvað út af brá og það skiptir ekki máli en mikið er erfitt að ala upp bráðþroska ungling! Dagurinn leið við leik og söng, ég bauð systrunum í búðarbíltúr í miðbæinn og við fórum á Pólóinum sem er allur orðinn rispaður eftir þrjóta sem stinga svo bara af. Við keyrðum, harla ánægðar með okkur, þrjár stelpur á leið í búðir og spjölluðum um daginn og veginn. Þegar í miðbæinn kom leituðum við að stæðum, fundum nokkur þar sem maður þarf að búa í hverfinu til að mega leggja, fundum líka nokkur stæði fyrir pöpulinn en fundum ekki hvar átti að keyra inn á þau. Eftir nokkra hringi á nokkrum hringtorgum komum við á svæði þar sem virtist líklegt að við fyndum stæði því það voru ekki svo margir bílar. Soldið skrítið því það var allt fullt af Japönum með myndavélar, Ameríkönum með rassa og stynjandi Ítölum í ullarpeysum og vattvestum (aðeins 30 gráður í dag). Og svo var allt svo huggulegt þarna, meðal annars ægilega áferðarfalleg bygging sem ég sá auðvitað um leið og ég keyrði upp að dyrum, eða því sem næst, að var dómkirkja borgarinnar. Þegar betur var að gáð kom í ljós að það mátti ekki leggja þarna. Ég mátti ekki einu sinni keyra þarna. Ég mátti ekki einu sinni koma inn í hverfið á bíl. Þannig að við snerum við á punktinum, unglingurinn blánaði og hvarf af skömm, dauðhræddur um að einhver vitni yrðu að stæðaharmleik frænkufíflsins en litla dýrið hafði tekið miðdegislúrinn sinn í tilefni að því að stæðisleitin hafði varað í klukkutíma eða svo. Unglingurinn tók gleði sína þegar ég benti henni á að ég þyrði að fullyrða að enginn í hennar bekk, enginn í hennar skóla, enginn á Íslandi óskyldur henni, ætti frænku sem þyrði að keyra í miðbæ Flórens high season. Rauðröndóttu, stórglæsilegu stuttubuxurnar sem fjárfest var í nokkrum mínútum seinna áttu líka alveg sinn þátt í að vandræðagangurinn varð ekki meiri. Ég verð reyndar að viðurkenna að mér stóð ekki á sama, svona eftir á, þetta hefði getað orðið dýrt ef engar stelpur í stuttum pilsum hefðu verið á torginu (þá hefðu ítölsku löggurnar kannski tekið eftir okkur). Og af því að við höfðum verið fjarverandi heila fjóra tíma fannst okkur við hæfi að koma færandi hendi í hús. Allir fengu eitthvað við sitt hæfi og Jón sérstaklega. Mynd væntanleg. Eftir ánægjulega kvöldverðarstund með amerísku fjölskyldunni frá Boulder, Colorado (skila kveðju frá þér, Helga) skutluðumst við Jón og Jóhann að sækja Einsa og mömmu til Bologna. Sem betur fer hittum við fullt af fólki sem við þekktum því að sjálfsögðu seinkaði vélinni. Jón gleymdi sígarettunum svo hann sendi Jóhann út að sníkja og ég er að spá í að fara að gera strákinn út. Hann er náttlega svo fallegur drengurinn, orðinn kolbrúnn og hárið gyllt og svo er hann himinlifandi yfir því að pabbi gamli skuli vera kominn. Alles ist gut im himmlen, gúdd næt. P.s. Theresu finnst hann lifandi eftirmynd mín og ég allt of ung til að eiga svona gamalt barn.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Theresa er greinilega með blæðingu í augnbotnunum...

(Stríðið er hafið!... You started it...)

12:21 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

"í fylgd útvalinna ættingja", segirðu já. Aðrir bara skildir eftir með sárt ennið og súrt eplið og allan pakkann á útskriftardaginn. Vil bara minna á að þetta er í annað skipti sem þú dömpar mér á merkisdegi fyrir Ítalíu. Takk takk.

12:26 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

HEHEHHEHE... Tinna er ekki búin að heyra nýjustu skilgreininguna á sér Sunnilla... hahahahaha... djöfull er mér skemmt.

(Og já Tinna... við getum alveg skemmt okkar án þín í þriðjudagshádegi...)

1:42 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

SPORÐDREKI 23. október - 21. nóvember
Himintunglin leggjast á eitt við að hjálpa sporðdrekanum við að vaxa. Hvað samkeppnina áhrærir er bara best að láta sem ekkert sé. (Reyndar er enginn samkeppni, hún er bara skynvilla).

3:12 e.h.  
Blogger Tinna said...

Þið eruð hálfvitar.

11:47 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home