sunnudagur, ágúst 13, 2006

Ahbú í bili

Það þarf ekki að taka það fram að við erum komin heim, heilu og höldnu. Þökkum þeim sem lásu. Over and out.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Ferðarlok, (með erri)

Sigið all hressilega á seinni hlutann og ekkert síma- eða netsamband á ferðalagi fjölskyldunnar undanfarna daga. Á fimmtudaginn stóð til að heimsækja Mediciana en við urðum að hætta við vegna hita (36 gr og skýjað) auk þess sem safnið var lokað. Fórum þess í stað á litlu trattoríuna sem við fundum um árið á Via Proconsolo, þar sem klæðskiptingurinn og nunnan þurftu að þjappa sér svo við Einar gætum setið ung og ástfangin á sama borði. Og hvort annað. Kokkurinn blindfullur og klósettið í næstu götu. Besta svínasteik sem ég hef smakkað til þessa... Staðurinn sveik ekki og við átum nægju okkar og fórum svo heim því hitinn var hreint og beint óbærilegur. Á föstudagsmorguninn lögðum við svo af stað til Garda að hitta Lamba og Fjömmu; borðuðum á leiðinni í litlum bæ þar sem í boði var smjör-pinolipasta og heimsins besti möndlubúðingur. Laugardagurinn fór í sólbað á Hotel Olimpia við Gardavatn; afi Lamba samdi um það við hótelstjórann að afkomendur hans og þeirra kompaní hefðu ævarandi aðgang að lauginni þegar hann seldi honum lóðina. Þar er sko önnur sápa! Einar var á röltinu, Jóhann í lauginni og ég svaf í skugga ólífutrjánna. Frábær dagur. Á sunnudeginum sigldum við um vatnið, gerðum vísindalegar ískannanir og héldum svo áfram að sofa við laugina. Á mánudeginum keyrðum við Genúa eftir að hafa mælt okkur mót við hinn óborganlega Max sem deildi íbúð með mér í Genúa um árið. Ég lenti í rifrildi við einn af gjaldkerum hraðbrautarinnar sem endaði með því að Einar fór út og borgaði 1 evru með kreditkortinu sínu svo við losnuðum úr öskrinu og flautinu. Ég missti það ... næstum því. Hugsa samt að fegðarnir skrifi ekki undir þá söguskýringu. Eftir hrakningar við að komast inn í Genúa hittum við Max og fengum okkur heimsins bestu granítu hjá geðvondu Sikileyingunum í Castelletto. Það var frábært að hitta Max og úr varð að við gistum hjá honum og frú Mirellu sem búa einmitt við sömu götu og Ásta og Kjartan gerðu um árið. Borðuðum saman á L'Infernotto, stað sem við reynum að heimsækja í hverri heimsókn til Ítalíu. Urðum ekki fyrir vonbrigðum frekar en fyrri ár - og enduðum Genúa dvölina á hádegisverði á sama stað. Staðurinn er á Via Macaggi, beint á móti líkamsræktarstöðinni hennar Ástu..! En maður minn - ég var búin að steingleyma hvað Genúabúar eru leiðinlegir! Stressið var verra en á íslenskri Þorláksmessu og stælarnir svakalegir. Meira að segja Jóhann fékk sinn skammt þegar hann hætti við að fá sér bacio ís og valdi nocciola í staðinn. Það lá við að ísfíflið tapaði sér; frussaði í bræði yfir barnið og henti í hann ísnum. Borgin er hrikalega skítug, hundaskítur og hland úti um allt og fullt af plássum í niðurníðslu. En endurfundirnir við Max og viðkynningin við hina sjarmerandi og óléttu Mirellu voru frábærir. Max upplýsti okkur um að hann og Totti (þið vitið, Francesco) væru æskuvinir og hefðu æft fótbolta í gamla daga og Jóhanni fannst strax meira til hans koma. Við gistum svo hjá þeim og ég fékk svakalega martröð, dreymdi að Jón Haukur væri dáinn og Gunna gerði ekki annað en hugga okkur Arnar. (Hvernig er svo veðrið í Indjánagili?) Lögðum af stað frá Genúa eftir himneskan semifreddo á L'Infernotto, og drukkum kaffi með hinum uber sænska Peter frá Isomac í fyrrum hippanýlendunni Pietra Santa, í nágrenni marmaranámanna í Carrara. Brunuðum því næst heim á leið til að eiga síðustu kvöldmáltíðina í faðmi Egyptanna í Rifredi. Brá í brún þegar við komum því við vorum einu gestirnir. Höfðum á hraðbrautinni gleymt, við ljúft undirspil félaga Conte, að leikur Ítalíu og Þýskalands var aðalmálið og enginn mundi eftir að borða. Báðumst margfaldlega afsökunar á að trufla þá við leikinn en þeir hugsuðu sér gott til glóðarinnar því þeir héldu að við værum Þjóðverjar. Kannski hafa þeir ætlað að lemja okkur sér til skemmtunar í leikslok? Við leiðréttum misskilninginn snarlega og sögðumst vera Ítalir í hjarta og þá misstu þeir áhugann og gleymdu helmingnum af pöntuninni svo við drifum okkur heim í hundaland að horfa á seinni hálfleik. Nú þegar honum er lokið með ótrúlegum sigri okkar manna, Totti vinur okkar Max var náttlega æðislegur, vitum við ekki hvort við munum sofa neitt í nótt því bílflauturnar gella um hæðirnar og nú er komið að hundunum að missa það... Á morgun: vatnsrennibrautagarður til heiðurs Jóhanni og svo flug einhverntímann um kvöldið. Ólíklegt að meira heyrist héðan... staðfesti lendingu þegar ég vakna á fimmtudag.

miðvikudagur, júní 28, 2006

P.s.

Mótórhjólakappinn, pabbi strákanna, hét "Landi", ef einhver kannast við hann. Ég er farin að halda að hryssan skelli sér líka í laugina. Djöfull verður Arnar glaður með gjöfina sem fjölskyldan valdi handa honum í sameiningu. Þ.e.a.s. fjölskyldan í sameiningu, ekki Arnar. Já, og ég er ótvíræður sigurvegari moskítóbitakeppninnar. Þetta fer að verða eins og í Genúa um árið; þær bíta mig í gegnum fötin, þær bíta mig meira að segja í gegnum sólstóla! Djöfull er ég sæt!

Jón er farinn heim

Jæja, þá er meirihluti hópsins floginn á vit rigningar og bjartra sumarnátta. Við átum kveðjupizzur þeim til samlætis í mollinu - eini staðurinn sem var opinn svona snemma! Þetta er soldið skrítið - frændsystkinin hafa rifist með nokkurra mínútna millibili alla vikuna, og sæst dramatískt inn á milli, en ungfrúin var ekki fyrr farin en erfðaprinsinn fór að tala um að nú vantaði eitthvað... Er samt nokkuð ánægður með athyglina og valdi að fara að skoða Uffici og fornar slóðir Medicianna frekar en fara í vatnsrennibrautagarð í næsta þorpi. Svo ræddum við svolitla stund um hvort við teldum möguleika á að fá Medici-þættina frá BBC á spólu. Eitthvað virðist vera að heppnast hjá okkur í uppeldinu. Og ef einhver veit hvar nálgast má þættina má senda Jóhanni línu. Annars gróf Edda upp smá inside information um hamingjusömu fjölskylduna sem hýsi okkur. Ættfaðirinn (eiginmaður Theresu og pabbi Stefanos og Francescos) var frægur mótorhjólakappi frá Flórens. Hann efnaðist á að keppa í kappakstri og keypti villurnar, í niðurníðslu, fyrir einhverjum árum. Svo lenti hann í slysi, mótorhjóla-, auðvitað, og lá milli heims og helju í einhvern tíma. Á endanum dó hann og þá fór mamman að slá sér upp með lækninum sem hafði unnið hvað ötulast í að tjasla honum saman. Nú eru þau gift og Francesco kallar hann "eiginmann móður minnar". Þannig var nú það. Orri fékk sér göngutúr niður að sundlaug í gærkvöldi og kom að hundunum, öllum fjórum, að fá sér vatnssopa úr lauginni. Ég efast um að þeir hiki við að skella sér í laugina þegar þeir eru í stuði. Þess vegna langar mig að fara í vatnsrennibrautagarð... Á föstudaginn ætlum við svo að skreppa til Garda, að hitta Lamba og Fjömmu, og vera með þeim þar fram á mánudag. Þá er aldrei að vita nema Max sjái sér fært að hitta okkur í Genúa á leiðinni til baka. Sjáum til.

þriðjudagur, júní 27, 2006

Sorp á reki

Hm... Bíddu nú við. Sunnudagur: sundlaug og svo út að borða. Minnir mig. Mánudagur: bíltúr til Monterosso og bað innan um dömubindi, túrtappa og plástra úr "fínu" snekkjunum sem dóla fyrir utan strandlengjuna. Verð hafa hækkað um ca. 300% frá því að við vorum þarna fyrst, fyrir 6 árum. Leigðum hjólabát og Orri hélt uppteknum hætti, henti börnunum til skiptis í Miðjarðarhafið. Áður en hákarlamisskilngurinn hafði verið leiðréttur vakti tiltækið talsverða skelfingu en svo var bara stuð. Borðuðum vel og lengi á hipp og kúl veitingastað bæjarins og keyrðum svo heim á leið. Því miður var beinasta leiðin heim lokuð í tilefni dagsins svo við þurftum að taka á okkur klukkutíma aukakrók... Rennt í hlað heilu og höldnu í hæðunum klukkan korter yfir þrjú eftir að hafa drukkið tvo alvöru tvöfalda caffé á einhverju vegakaffi og sungið þríraddað öll helstu auglýsingastef Íslandssögunnar. Hver man ekki eftir "Kaye's er kosturinn..."? (Yfirþýðandinn er beðinn um að taka eftir greinamerkjasetningunni og taka hana til sín.) Dagurinn verður notaður til að þvo það sem þarf að þvo því meirihlutinn heldur heim á morgun og þá missum við aðganginn að þvottavélinni. Brjálað að gera, eins og þið sjáið...

laugardagur, júní 24, 2006

Ég bara get þetta ekki

Timburmenn í heimsókn í morgun og voða heitt, Orri neytir aflsmunar og hendir börnunum til skiptis út í laug, í fötum eða án, mæðrunum til mikillar skapraunar. Búið að fjárfesta í sólhlíf og ægilega flottum sólbekk, heitar umræður á veröndinni um allt sem engu máli skiptir, rauðvínið farið að segja til sín. Ég ætla deffinetlí að hætta að drekka að ferðalagi loknu. S K Á L !

fimmtudagur, júní 22, 2006

Nýr unglingshani á haugnum

Unglingarnir voru settir í flug í kvöld og annar unglingur, reyndar aðeins eldri fenginn í staðinn. Addi og Brynja sitja as I write um borð í spænsku Futura vélinni; verði þeim að góðu geðvonda flugfreyjan! Orri litli er hins vegar lentur hér og sefur vonandi vært. Hann er með hanakamb. Fundur á morgun, fundur á föstudag, hver er að kvarta um að ég hafi ekkert að gera? Svo eru a.m.k. 14 tegundir af ís sem ég hef hugsað mér að smakka betur. Það er gott að Lilli er kominn, hann er svo ágætur. Líka með kambinn.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Un gelato - tantissimi gelati

Arnar bað um ísrapport. Ég hef þyngst um a.m.k. 3 kg og stend mig mjög illa í drykkjunni. Svarar það einhverju? Ísinn er frábær, meira að segja iðnaðarísinn. Sem er mjög heppilegt fyrir mig. Börnin og unglingarnir voru mjög fljót að átta sig á að ég er alltaf til í að splæsa ís. Nú hafa þau hins vegar misst áhugann en ég grátbið þau um að þiggja einn (þó ekki væri nema saman) mér til samlætis. Það kemur einhvern veginn betur út. Arnar! Við þurfum að fara í helgarferð til Ítalíu í þeim tilgangi einum að smakka ís. Svo erum við að fara á fund á morgun til að skoða ísvél Ariete framleiðandans, hún virkar eins og þessi sem við vorum með nema miklu þægilegri í notkun og tekur hemingi minna pláss. Ég varð vandræðalega glöð þegar ég sá hana og gat varla setið á mér að biðja um sýniseintak með mér heim, alveg til í að bera hana og allt.

Brjálað að gera

Bíddu nú við, hvar var ég. Á mánudaginn fórum við og versluðum í matinn og svo fórum við Einar á fund með Ariete. Tókst að villast en fundum staðinn á endanum og enduðum í kvöldmat hjá markaðsstjóranum og íslenskri eiginkonu hans. Áttum frábært kvöld á meðan restin af hópnum drakk dýrasta gos lífs síns á einhverjum skítatúristastað í bænum. Svona er lífið, skin og skúrir. Hm... og hvað svo... í gær fórum við í "yndislegan" vatnsrennibrautargarð við ströndina og borðunum svo skelfiskpasta á veitingastað í sjávarmálinu í kvöldmat. Annað frábært kvöld. Í kvöld kemur svo Orri til að vera í viku og unglingarnir fara heim. Hvað ættum við að gera í dag... Ég ætla að byrja á að leggja mig.